Boomerang Bags // Pokastöðin

Pokastöðin er í samstarfi við alþjóðlegt verkefni sem heitir Boomerang Bags og kemur frá Ástralíu en dreifist nú eins og eldur í sinu um allan heim. Við munum koma til með að trana því fram eins vel og við mögulega getum, enda veitir ekki að dreifa boðskapnum sem víðast. Endilega kíkið á facebook síðu Boomerang Bags og smellið einu “læki” á síðuna þeirra.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið sem við sáum og komumst að því að aðrir væru að gera svipaða hluti og við hér á Íslandi!

Hvernig hófst Pokastöðin á Íslandi

Einn af fyrstu saumahittingum okkar hér í Hornafirði, skemmtileg stund saman!

Fyrsta Pokastöðin á Íslandi poppaði upp á Höfn í Hornafirði á vordögum 2016. Undirrituð er verkefnisstjóri verkefnisins á Höfn og hafði ég gengið með hugmyndina í kollinum eftir að hafa “rannsakað” mjög óformlega afhverju fólk var ekki að nota plastpoka. Bæði ég sjálf og mín fjölskylda ásamt þeim sem svöruðu mér þegar ég spurði höfðu nánast alltaf sama svar á reiðum höndum “ég gleymdi pokanum heima” og jafnvel “ég gleymdi pokanum útí bíl”. Svo það eitt að hafa gleymt honum útí bíl var nóg til þess að fólk keypti fremur poka á kassanum. Margir töluðu líka um að þeir þyrftu hvort sem er poka í ruslið. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fólk telji sig þurfa plastpoka við kassann en oftast var það þó bara svo einfalt að það hafði gleymt honum heima og margir ekki komnir með það í rútínuna að taka taupokann alltaf með sér.

“Við eigum öll fullt af taupokum heima” sagði ég sjálfri mér, afhverju söfnum við þeim ekki bara saman niðrí búð og skilum þeim þar, þá ættu alltaf að vera til pokar. Búa til hringrás taupoka í samfélaginu. Við myndum hittast reglulega og sauma til að fylla á körfuna, ásamt því að kalla eftir pokum og minna fólk á að skila pokum sem það fær lánaða. Allir pokar er unnir úr gömlum bolum eða efnum sem fólk í samfélaginu gefur í verkefnið.

cropped-13450269_10153825034498040_2431331271941644970_n.jpg
Hér erum við nokkrar kátar konur á fyrsta saumahittingi okkar á Höfn vor/sumar 2016

Ég er svo heppin að vera að vinna að verkefnum fyrir Samtök Sunnlenskra Sveitarfélaga (SASS) sem meðal annars vinna að Sóknaráætlun Suðurlands þar segir m.a. að megin áherslur séu að “Skapa jákvæða ímynd af Suðurlandi sem byggir á gæðum og hreinleika” og að “vinna að umhverfisvakningu með sjálfbærni að leiðarljósi..”. Með þetta fór ég á fund SASS og fékk það samþykkt sem eitt af mínum verkefnum að innleiða þetta kerfi til að byrja með í Hornafirði þar sem ég er búsett og síðar var það samþykkt sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands að innleiða kerfið á allt Suðurland og er sú vinna í gangi nú á vormánuðum 2017.

Í dag hefur verkefnið verið sett á laggirnar á nokkrum stöðum á Íslandi. Hægt er að finna lista yfir þá sem eru þegar byrjaðir hér eða hafa samband við verkefnisstjóra Pokastöðva hafir þú áhuga á að setja á laggirnar eina slíku í þínu samfélagi.